„Þetta voru fyrir mér mjög skemmtilegir tímar þar sem ríkti mikil bjartsýni. Á þeim tíma var mjög gaman að vera inni í lyfjaverkefnum því bakhjarlinn var öflugur og gat stutt við bakið á þeim verkefnum sem maður vann að,“ segir Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas Capital, spurð út í það hvernig hún upplifði uppganginn þegar hún starfaði fyrir Milestone-samsteypuna. „Þetta var skemmtilegt að mörgu leyti. Raunverulega má segja að þetta veldi, Milestone eða Moderna Finance, þar sem ég starfaði, komi frá lyfjabransanum upprunalega. Það er þaðan sem Karl Wernersson og hans fjölskylda efnast. Síðustu árin var þó stærsti hluti starfseminnar farinn langt frá þeim grunni. Að sumu leyti get ég ekki sagt að ég hafi verið inni í hringiðunni hvað það varðar. Fyrirtækið þróaðist í þrjá arma. Annars vegar Lyf og heilsa og tengdar fjárfestingar í Austur-Evrópu og þar var ég. Hins vegar var það bankageirinn og svo tryggingastarfsemin. Þetta þrennt var aðskilið og ég get ekki sagt að ég hafi verið í mesta fjörinu. Svo var ég í barnseignarfríi árið 2007 og missti af öllu fjörinu þar. En auðvitað var maður þarna undir þessari regnhlíf og fann fyrir uppganginum.

Hrund segist hafa fundið mikið fyrir breytingunni þegar hún kom til baka eftir að hafa verið nær heilt ár í burtu.

„Þegar ég var að fara í barnseignarfrí í árslok 2006 þá var allt hægt og allt mögulegt. Þegar ég kem til baka 2008 þá finnur maður að það er allt önnur stemning og búið að taka í handbremsuna. Þá var ekki hægt að byggja upp áfram, né standa við þau verkefni sem búið var að ráðast í. Þá breytist mitt verkefni í að fara að selja þessar eignir. Fyrir mig persónulega voru það mikil vonbrigði þar sem þetta voru flottar eignir og góður rekstur. Verkefnið var að að komast á það stig að geta gefið af sér jákvæða afkomu þar sem breytingarferlinu var lokið og komið í rekstrarhæft form. Þá var þetta skyndilega sett í söluferli til að reyna að bjarga banka og tryggingafjárfestingunum,“ segir Hrund sem leynir því ekki að hún telur það óskynsamlegt þegar menn fóru of langt frá sínum uppruna. „Það að þú standir þig vel á einum markaði gefur ekkert sjálfkrafa til kynna að það eigi við á öðrum. Það eru oft allt önnur lögmál sem gilda.“

Rætt er við Hrun í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .