Forsvarsmenn ellefu fyrirtækja tóku á móti viðurkenningum sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum í gær. Þetta voru fulltrúar fyrirtækjanna Advania, Greiðsluveitan, Icelandair Group, Íslandsbanki, Íslandspóstur, Íslandssjóðir, Landsbréf, Lánasjóður sveitafélaga ohf., Mannvit, Stefnir og Vátryggingarfélag Íslands.

Fram kemur í tilkynningu að Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, hafi veitt viðurkenninguna ásamt þeim Sævari Frey Þráinssyni fyrir hönd Viðskiptaráðs Íslands, og Eyþóri Ívari Jónssyni, forstöðumanni Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands.

Dr. Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti, sem stóð að ráðstefnunni sagði að tilgangur verkefnisins um Fyrirmyndarfyrirtæki um góða stjórnarhætti væri fyrst og fremst til þess að færa frumkvæðið í umræðunni á góðum stjórnarháttum til stjórna fyrirtækja. „Það er mikilvægt að þau fyrirtæki sem eru til fyrirmyndar hvað varðar góða stjórnarhætti séu ekki einungis að uppfylla skilyrði í reglum og leiðbeiningum heldur séu að vinna með þeim hætti og kynni nýjungar í starfsháttum sem er öðrum til fyrirmyndar.“

Hrund Rudolfsdóttir, stjórnarformaður Stefnis, benti á að það þegar hún tók við viðurkenningunni að mikilvægt sé fyrir íslenskt atvinnulíf að endurheimta það traust sem tapast hafi á síðustu árum. Í trausti og trúverðugleika viðskiptalífsins felist mikil verðmæti.