*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 9. nóvember 2013 09:15

Hrund Rudolfsdóttir: Okkur vantar fyrirmyndir

Forstjóri Veritas Capital segir fólk oftast stjórnast af staðalímyndum. Af þeim sökum eru konur ekki metnar að verðleikum.

Guðni Rúnar Gíslason
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Ég hef bara séð það mörg tilfelli þar sem það er ljóst að konur eru ekki metnar að verðleikum. Það eru ýmsar ástæður fyrir því,“ segir Hrund Rudolfsdóttir, sem tók fyrir skömmu við sem forstjóri Veritas Capital af Hreggviði Jónssyni. Veritas er móðurfélag frumlyfjafyrirtækisins Vistor, samheitalyfjafyrirtækisins Artasan, birgðahalds- og dreifingaraðilans Distica auk Medor sem selur ýmis lækningatæki og hjúkrunarvörur. Samstæðan er umfangsmikil að vexti og nam velta hennar yfir fimmtán milljörðum á síðasta ári.

Hrund segir í samtali við Viðskiptablaðið að fólk stjórnist oft af staðalímyndum.

„Stundum er það einfaldlega þannig að við höfum aldrei séð konu í ákveðnu hlutverki þannig að hugurinn hleypur með okkur. Þannig búum við til karlmennskuímyndina og tengjum það jafnframt við stöðuna. Okkur vantar fyrirmyndir,“ segir Hrund sem bendir jafnframt á aðra skýringu. „Ég hef oft setið þar sem verið er að hugsa nýja manneskju í stólinn, hvort sem það er framkvæmdastjóra eða í stjórn, þar sem konurnar hafa skilað sér seint eða illa á blað. Staðreyndin er sú að kynslóðin á undan mér í viðskiptum hefur mestmegnis verið karlar. Þeir nota sitt tengslanet mikið við ákvarðanatöku og það samanstendur oft bara af karlmönnum. Ég er ekki á því að viðskiptalífið sé fullt af illgjörnum karlmönnum sem sitja og reyna að fella ungar konur heldur er það þannig að hefðir, skortur á að hugsa út fyrir boxið og viðteknar venjur hafa fellt fullt af frambærilegum konum. Ef þú spyrð alltaf sömu spurningarinnar, færðu alltaf sama svarið,“ segir Hrund.

Rætt er við Hrun í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.