Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, bendir í grein í Morgunblaðinu í dag á óþægilega stöðu sem blasað gæti við bönkum og lánastofnunum næstu vikurnar. Vísar hann þar til dómaframkvæmdar Hæstaréttar í umboðssvikamálum í kjölfar hrunsins.

Til að unnt sé að sakfella fyrir umboðssvik þarf brotið að vera framið í auðgunarskyni, til að sá brotlegi eða einhver annar auðgist, auk þess að ásetningur þarf að hafa staðið til brotsins. Þá verður verknaðurinn að hafa falið í sér fjártjón eða röskun á fjármunum, hafa fjárgildi og ólögmæt yfirfærsla eigna að hafa átt sér stað.

Í kjölfar efnahagshrunsins rötuðu fjölmörg umboðssvikamál til Hæstaréttar og þótti ýmsum að talsvert hefði verið slakað á skilyrðinu um auðgunarásetning. Síðasta haust kom út rit eftir Eirík Tómasson, fyrrverandi hæstaréttardómara, þar sem fjallað er um dóma Hæstaréttar í umboðssvikamálum í kjölfar hrunsins. Komst Eiríkur þar að þeirri niðurstöðu rétturinn hefði fylgt þeirri línu sem lögð hafi verið á árum áður. Jón Steinar er hins vegar á öðru máli.

Sjá einnig: Óþarfi að breyta ásetningshugtakinu

„Svo er að sjá að rétturinn hafi haft einhvern sérstakan vilja til að refsa þessum sökuðu mönnum án þess að lagaskilyrðinu hafi verið fullnægt og þar með valdið þeim og ástvinum þeirra miklu böli. Rétturinn henti því út þessu einfalda skilyrði fyrir refsingum og ákvað í staðinn að nægilegt væri að sakborningur hefði með háttsemi sinni valdið verulegri hættu á að sá sem unnið var fyrir (banki) yrði fyrir tjóni,“ ritar Jón Steinar. Telur Jón Steinar að með þessu hafi rétturinn slegið það fordæmi að mönnum beri að refsa fyrir að eiga í áhættusömum viðskiptum.

Sem kunnugt er er ástandið í efnahagsmálum landsins þessa dagana ekki eins og best verður á kosið. Tekjustreymi fyrirtækja í ferðaþjónustu þornaði upp nánast á einni nóttu og er staðan þar einna verst. Áhrif veirufaraldursins takmarkast þó ekki við greinina og ljóst að fjölmörg fyrirtæki munu þurfa að grípa til aðgerða til að forða gjaldþroti. Ríkið hefur gripið inn í til að auðvelda bönkum að veita lán til að halda lífinu í fyrirtækjum til að forða þeim frá þroti. Í grein sinni bendir Jón Steinar á þá stöðu sem upp er komin.

„Til dæmis er nú ljóst að bankar geta ekki veitt viðskiptamönnum sínum, sem eru í vandræðum vegna veirufaraldursins, lánafyrirgreiðslu nema þeir geti sett „klossöruggar“ tryggingar fyrir endurgreiðslu af sinni hálfu. Gildir þá einu þó að ríkissjóður hafi lofast til að ábyrgjast bankanum helming lánsins, sem viðskiptavinurinn fær,“ segir Jón Steinar.

„Getur verið að dómarar við æðsta dómstól landsins hafi ekki meiri skilning á mannlífinu í landinu, að þeir telji sig geta „skapað“ svona rétt? Kannski þessi réttarsköpun hafi verið einnota?“ spyr lögmaðurinn í niðurlagi greinarinnar.