Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, tilkynnti á ársfundi Seðlabankans fyrir stundu að bankinn ynni nú að útgáfu 10.000 króna peningaseðils eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir stundu.

Már sagði að seðillinn færi í umferð í fyrsta lagi haustið 2013.

"Verðlagsþróun og aukið seðlamagn í umferð hefur gefið tilefni til að meta þörfina fyrir útgáfu nýs peningaseðils með hærra ákvæðisverði. Seðlabankinn hefur því hafið undirbúning að útgáfu nýs peningaseðils,“ sagði Már í ræðu sinni.

Það sem aftur á móti vekur athygli er að í byrjun febrúar skrifaði Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir og hagfræðingur, umtalaða grein í Fréttablaðið sem bar yfirskriftina; Hrunið 2016. Greinin vakti nokkra athygli og umræðu þegar hún birtist fyrir um 1½ mánuði síðan.

Í grein sinni setti Heiðar Már sig í spor sögumanns sem staddur var á Íslandi haustið 2016. Aðstæður voru þannig að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri aftur kominn til Íslands og í þetta sinn hafði það verið íslenska ríkið sem ekki gat staðið við skuldbindingar sínar í erlendri mynt.

Heiðar Már rakti hina ýmsu þætti sem urðu til þess að hér á landi varð aftur hrun haustið 2016. Meðal þess sem fram kom í greininni var eftirfarandi setning; „...og Seðlabankinn kórónaði óstjórnina í peningamálum með því að gefa út nýja 10.000 og 20.000 króna seðla.“

Sjá grein Heiðars Más í heild sinni.