Fallið á kínverska hlutabréfamarkaðnum virðist engan endi ætla að taka, en í dag lækkaði Hang Seng vísitalan í Hong Kong um 6,25% og Shanghai SSE Composite vísitalan um 5,90%. Innan dags nam lækkunin á síðarnefndu vísitölunni 8%. Frá því í júní hefur vísitalan lækkað um tæp 30%.

Í dag lýstu 500 fyrirtæki til viðbótar því yfir að þau myndu taka bréf sín úr viðskiptum í kauphöll til að reyna að forðast áhrif gengishrunsins, sem nún stendur yfir. Alls hafa 1.300 fyrirtæki tekið þessa ákvörðun, eða um helmingur skráðra fyrirtækja í Kína.

Dagurinn í dag hefur, að því er segir í frétt BBC, fengið nafnið Svarti Miðvikudagurinn, sem er vísun í mánudaginn svarta árið 1987, þegar hlutabréfamarkaðir heims hrundu, eftir gengisfall bréfa í Hong Kong.

Eftirlitsyfirvöld í Kína hafa í fyrsta sinn viðurkennt að raunverulegt upplausnarástand ríki á markaðnum. Eftirlitsaðilar hafa gert hvað þau geta til að róa fjárfesta og hefur miðlunarfyrirtækjum verið lofað að þeim muni standa til boða aukið fjármagn til að ýta undir hlutabréfakaup. Þá hefur heimild tryggingafélaga til hlutabréfakaupa verið aukin úr 5% af heildareignum í 10%.

Þrátt fyrir þessar aðgerðir hafa gengislækkanirnar haldið áfram og hafa haft áhrif á hlutabréfamarkaði í nágrannalöndunum, en japanska Nikkei vísitalan lækkaði um 3,14% og ASX vísitalan í Sydney um 1,93%.