Rétt áður en fjármálakreppan skall á árið 2008 hóf Georg Lúðvíksson störf hjá Glitni á Íslandi. Þremur dögum síðar hrundi bankinn. En með hruni bankakerfisins sá Georg tækifæri og stofnaði fyrirtækið Meniga.

Meniga þróar og selur heimilisfjármálahugbúnað til fjármálastofnana, auk afleiddra gagnavara. Tilgangur fyrirtækisins frá upphafi hefur verið að hafa jákvæð áhrif á fjármálahegðun fólks og hjálpa því með heimilisfjármálin. Meniga byggir á þeirri sýn að nota megi nýjustu vef- og upplýsingatækni til að auðvelda fólki að stjórna sínum fjármálum. Þegar fyrirtækið var stofnað snemma árs var eitt af hverjum tíu heimilum í landinu í viðskiptavinahópi Meniga. Í dag er Meniga leiðandi á sínu sviði í Evrópu. Fyrirtækið á í viðskiptum við 35 fjármálastofnanir og hafa yfir 50 milljónir neytenda í 18 löndum aðgang að hugbúnaði fyrirtækisins. Yfir 100 starfsmenn starfa hjá Meniga í Reykjavík, Stokkhólmi og London.

Georg, sem er forstjóri Meniga, lýsir sjálfum sér sem „raðfrumkvöðli“, en undanfarin tuttugu ár hefur hann stofnað, byggt upp og rekið alþjóðleg sprotafyrirtæki í hugbúnaðargerð.

„Ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki ásamt tveimur öðrum þegar ég var í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, en hana kláraði ég árið 1999. Fyrirtækið hét Dímon og sérhæfði sig í samþættingarlausnum fyrir farsíma og vann mikið með Nokia. Dímon byggði ég upp í fimm ár og var aðallega í tæknihliðinni. Þar lærði ég að það er frekar sala og markaðssetning sem skilur á milli feigs og ófeigs heldur en tæknimálin. Á þessum tíma fékk ég brennandi áhuga á viðskiptahliðinni á því að koma fyrirtæki á legg.

Eftir Dímon starfaði ég í tvö ár sem sölustjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Mönnum og músum og hjálpaði fyrirtækinu að auka sölu stórra hugbúnaðarlausna í Bandaríkjunum. Svo hélt ég út í MBA nám við Harvard Business School milli 2006 og 2008. Námið var almennt en ég tók mikið af kúrsum í frumkvöðlastarfsemi og fjármálum. Þar stofnaði ég, ásamt skólafélaga mínum, fyrirtækið UpDown.com, sem náði mikilli útbreiðslu í Bandaríkjunum. Vefurinn gekk út á það að hjálpa ungu fólki að læra hlutabréfafjárfestingar þar sem fólk hafði eina milljón Bandaríkjadala í spilapeninga.

Árið 2008 flutti ég svo heim, korter í hrun, af fjölskylduástæðum. Ég var búinn að ráða mig í vinnu hjá vogunarsjóði. En það kom aldrei til þess. Þegar sá gluggi lokaðist tók ég snögglega þá ákvörðun að fara til Glitnis og hjálpa þeim að sækja meiri innlán erlendis. Ég mætti í vinnuna en eftir þrjá daga var Glitnir farinn á hausinn. Það var mjög sérstök lífsreynsla. Ég vissi svo sem að bankinn gæti verið að hrynja. Eftirá að hyggja er svo sem ágætt að maður hafi ekki verið bendlaður við söfnun bankanna á innlánum erlendis!

Á þessum tímapunkti hugsaði ég með mér að þetta væri kannski ekki besti tíminn til að fara í fjármálageirann. En ég hafði samt áhuga á fjármálum. Ég var alltaf að hjálpa fjölskyldu og vinum með eitthvað fjármálatengt. Svo hef ég alltaf haft sterkar skoðanir á fjármálalæsi og fjármálahegðun fólks. Það skiptir svo miklu máli fyrir lífsgæði fólks hvernig það hagar sínum fjármálum. Þegar ég bjó í Boston kom líka fram á sjónarsviðið ný kynslóð af heimilisfjármálalausnum, eins og Mint. com. Ég var búinn að vera með hugmyndina um Meniga í maganum í mörg ár og vildi taka þátt í þessari bylgju. Eftir að ég kom heim og allt hrundi ákvað ég að nú væri rétti tíminn til að kýla á þetta.“

Nánar er rætt við Georg Lúðvíksson, forstjóra Meniga, í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .