HRV Engineering sagði í dag upp 19 starfsmönnum sem flestir störfuðu við hönnun, verkefna- og byggingarstjórnun við álver Norðuráls í Helguvík.

Einnig verður hagrætt í almennum rekstri fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HRV Engineering.

Þar kemur fram að gripið er til aðgerðanna vegna þeirrar biðstöðu sem nú ríkir varðandi byggingu álversins í Helguvík og samdráttar í öðrum smærri verkefnum fyrirtækisins.

Uppsagnirnar koma til framkvæmda innan þriggja mánaða en samkvæmt tilkynningunni er vonast til að möguleiki verði á endurráðningum þegar framgangur álversins í Helguvík hefur verið tryggður.   Þá kemur fram að undanfarna mánuði hafa um 90 verkfræðingar, tæknifræðingar og aðrir sérfræðingar starfað á vegum íslenska þekkingarfyrirtækisins HRV Engineering við byggingu nýs álvers Norðuráls í Helguvík.

Fyrirtækið hefur unnið að heildarhönnun, stjórnun og eftirliti með framkvæmdunum.

„Vegna breyttra aðstæðna stendur nú yfir endurskoðun á öllu verkefninu og mun starfsmönnum HRV sem starfa við verkefnið fækka á meðan. Hluti starfsmanna mun snúa til annarra verkefna innan fyrirtækisins,“ segir í tilkynningunni.   Að sögn Kolbeins Björnssonar, forstjóra HRV Engineering, standa vonir til að umsvif fyrirtækisins aukist mjög í Helguvík, þegar framkvæmdir við álverið hefjast af fullum krafti að nýju. Brýnt sé að allir hlutaðeigandi snúi bökum saman um að tryggja álverinu framgang.