Fimmtíu manns eru látnir eftir skotárás á skemmtistaðinn Pulse í Orlando í Flórída í nótt og 53 eru særðir. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir. BBC greinir frá þessu og segir jafnframt að árásarmaðurinn sé Omar Mateen, 29 ára bandarískur ríkisborgari. Um er að ræða mannskæðasta fjöldamorð í nútímasögu Bandaríkjanna.

Lögreglan segir að um hryðjuverk sé að ræða, en skemmtistaðurinn Pulse er fyrir samkynhneigða, tvíkynhneigða og transfólk. FBI sagði fyrr í dag að vísbendingar væru um að árásarmaðurinn hafi „hallast að“ öfgafullri íslamskri hugmyndafræði og BBC hefur eftir embættismanni að það sé engin tilviljun að ráðist hefði verið á skemmtistað fyrir samkynhneigða, tvíkynhneigða og transfólk.

Árásin hófst um klukkan 2 í nótt að staðartíma, eða um kl. 6 í morgun að íslenskum tíma. Lögreglan réðist inn á staðinn um klukkan 5 í morgun og bjargaði minnst 30 gíslum. Um 320 manns voru á staðnum þegar árásin hófst.

BBC greindi frá því að árásarmaðurinn hafi verið með einhvers konar tæki á sér, en fyrri fréttir höfðu hermt að hann hafi verið með sprengjuvesti.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur óskað eftir að vera reglulega upplýstur um framvindu mála í Orlando. Forsetaframbjóðendurnir Donald Trump, Hillary Clinton og Bernie Sanders hafa öll tjáð sig um árásirnar.

Uppfært 14:38: Nýjustu fréttir herma að fjöldi látinna sé 50, en áður hafði verið talað um að minnst 20 hefðu látist.