*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Erlent 13. september 2021 12:28

Hryðju­verka­tengingin hamlað rekstrinum

Stærsta skýjakljúfur Bandaríkjanna og arftaki tvíburaturnanna er ekki enn orðin arðbær, sjö árum frá því að byggingin opnaði.

Ritstjórn
One World Trade Center er sjötta hæsta bygging heims.
epa

One World Trade Center, skrifstofuturninn sem var byggður í stað tvíburaturnanna í New York, er ekki enn orðinn arðbær, sjö árum eftir að turninn opnaði. Útleiga gekk erfiðlega í nokkur ár þar sem tengingin við hryðjuverkin 11. september 2001 fældi frá mögulega leigjendur. WSJ greinir frá.

„Þegar við áttum í viðræðum við stærri leigjendur þá var alltaf einn einstaklingur í hópnum sem fannst óþægilegt að vera á þessum stað,“ er haft eftir Douglas Durst, sjálfstæður þróunaraðili sem var fenginn til að finna leigjendur fyrir turninn. „Því enduðum við á að leigja til smærri fyrirtækja, þar sem forstjórnin gat sagt við fólk: ‚Ef þú villt ekki koma hingað, þá þarftu þess ekki.‘“

Framkvæmdir við One World Trade Center hófust árið 2006 og lauk 2012. Framkvæmdakostnaðurinn nam 3,8 milljörðum dala, eða um 490 milljarða króna, og því er um að ræða dýrasta skýjakljúfur sem byggt hefur verið í Bandaríkjunum. Fram kemur að gífurleg framúrkeyrsla hafi fylgt verkefninu og framkvæmdir tóku lengri tíma en til stóð.

Viðhorf fólks við að starfa í World Trade Center, sem er hæsti turn Bandaríkjanna, hefur þó verið að breytast með kynslóðaskiptum á vinnumarkaði. Fólk sem kemur núna inn á markaðinn voru einungis nokkurra ára gömul þegar hryðjuverkin áttu sér stað og horfa því fremur á árásina sem fjarlægjan sögulegan atburð heldur en persónulega ógn, að sögn viðmælenda WSJ.

Í dag er útleiguhlutfall One World Trade, sem telur um 288 þúsund fermetra, 90% eða á pari við aðra sambærileg atvinnuhúsnæði í miðbæ Manhattan að sögn framangreinds Durst. Kostnaður húsnæðisins var 335 milljónir dala og tekjur 328 milljónir dala á síðasta ári, að því er kemur fram í ársreikningi Hafnarstjórnar New York og New Jersey, eiganda turnsins.

Byggingin hefur þó hlotið styrki frá stjórnvöldum og leigan því verið lægri en í sambærilegu atvinnuhúsnæði, samkvæmt Lynne Sagalyn, höfund bókarinnar „Power at Ground Zero“.