Seðlabanki Íslands hefur sektað Sparisjóð Strandamanna um 2,5 milljónir króna vegna ónógra aðgerða til að verjast mögulegu peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það er niðurstaða sáttar á milli Sparisjóðsins og Seðlabankans.

Seðlabankinn segir að alvarlegir annmarkar hafi verið varðandi könnun áreiðanleika upplýsinga um tiltekinn viðskiptamann sem sér um innheimtu smálána. Sparisjóðurinn sleit síðasta sumar á viðskiptasamband við Almennri innheimtu ehf., sem séð hafði um innheimtu smálána í krafti aðgangs að greiðslumiðlunarkerfi bankanna í gegnum Sparisjóðinn.

Neytendasamtökin eru meðal þeirra sem harðlega hafa gagnrýnt aðkomu Almennrar innheimtu að innheimtu fyrir smálánafyrirtækið E-content sem einnig hefur gengið undir nafninu eCommerce2020 og veitir smálán undir fjölda vörumerkja hér á landi.

Framkvæmd sparisjóðsins á áreiðanleikakönnunum var einnig talið ábótavant. Í 10 tilfellum af 15 hafði ekki verið aflað upplýsinga um raunverulega eigendur og í 13 tilfellum af 15 höfðu upplýsingar um raunverulega eigendur ekki verið sannreyndar. Þá höfðu lögaðilar, raunverulegir eigendur, prókúruhafar og aðrir þeir sem hafa sérstaka heimild til að koma fram fyrir hönd viðskiptavinar í sjö tilfellum af níu ekki sannað á sér deili með fullnægjandi hætti.

Þá segir í samkomulaginu að eftirlit sparisjóðsins með einstaklingum í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla og þjálfun og fræðsla starfsmanna hafi verið ófullnægjandi.

Sparisjóðurinn viðurkennir jafnframt brot gegn lögum um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, með því að hafa ekki haft til staðar viðeigandi eftirlitskerfi til að meta hvort viðskiptamenn væru á lista yfir þvingunaraðgerðir. Sparisjóðnum var þó ekki gerð sekt vegna þess brots.