Fréttir af hryðjuverkaógn í Bretlandi hefur haft víðtæk áhrif á markaði víða um heim í morgun, segir greiningardeild Glitnis.

?Allar helstu hlutabréfavísitölur hafa lækkað og hefur verð hlutabréfa í evrópskum flugfélögum lækkað hvað mest. Hlutabréf í British Airways sem er þriðja stærsta flugfélag í Evrópu lækkuðu um 5,2% í morgun, Lufthansa um 2,9% og lággjaldaflugfélagið Ryan Air um 4%," segir greiningardeildin.

Hún segir kröfur um aukið eftirlit og öryggisgæslu, seinkanir og aflýst flug sem þessu fylgja koma til með að auka kostnað flugfélaga sem fara í gegnum breska flugvelli.

"Olíuverð hefur fylgt lækkunum á hlutabréfamarkaði. Viðbúið er að hryðjuverkaógnin dragi úr spurn eftir flugvélabensíni," segir greiningardeildin.