Hryðjuverkin sem framin voru í London í gær höfðu mikil áhrif á helstu fjármálamarkaði heims segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Þar er reynt að meta áhrif árásarinnar á alþjóðlega fjármálamarkaði. Töluverð lækkun hlutabréfaverðs átti sér stað við fyrstu tíðindi af hryðjuverkunum en þegar myndin af þessum verkum fór að skýrast gekk lækkunin til baka að stórum hluta. Þannig nam lækkun FTSE 100 hlutabréfavísitölunnar 4% þegar mest var í gærmorgun en endaði í 1,4% lækkun yfir daginn.

Hlutabréf stærstu fyrirtækjanna í kauphöllinni í London hafa almennt hækkað í verði það sem af er morgni í dag en FTSE 100 vísitalan hefur þó ekki náð sama gildi og fyrir sprengingarnar. Gengi pundsins hefur hins vegar lækkað stöðugt frá því í gær gagnvart dollara og nemur lækkunin nú tæpu 1,5% frá því áður en sprengingarnar áttu sér stað.

"Lærdóm má draga af áhrifum hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001. Fjölmargir fórust í þessum árásum og eyðilegging var mikil. En hin efnahagslegu áhrif voru samt mest vegna þess hvernig árásirnar snertu almenning og breytti hegðun hans. Einnig urðu áhrifin mikil vegna þeirra aðgerða sem hryðjuverkin kölluðu fram hjá stjórnvöldum víða um heim," segir í Morgunkorninu.

Þar er einnig bent á að hryðjuverkin 11. september komu illa niður á fyrirtækjum í ferðaþjónustu og skemmtanaiðnaði og bréf þeirra féllu í verði. Flugfélög áttu til dæmis sérstaklega erfitt uppdráttar í kjölfar atburðarins og urðu mörg þeirra gjaldþrota í kjölfarið. Bréf í fjarskiptafyrirtækjum og fyrirtækjum í framleiðslu lyfja og hergagna hækkuðu í verði. Gull og olía snarhækkuðu einnig í verði eftir hryðjuverkin. S&P 500 hlutabréfavísitalan lækkaði verulega en náði botni tíu dögum síðar þegar vísitalan hafði lækkað um 12% tæplega og velta aukist talsvert. Vísitalan sem slík hækkaði þó aftur og náði fyrra vísitölugildi aðeins mánuði eftir hryðjuverkin en skaðinn reyndist varanlegur fyrir mörg fyrirtæki.

"Ódæðisverkin sem framin voru í gær munu líklegast hafa áhrif á ferðaþjónustu- og samgöngufyrirtæki í Bretlandi og jafnvel víðar. Hert öryggisgæsla og aukin barátta gegn hryðjuverkum styður við fyrirtæki í framleiðslu hvers kyns hergagna. Þá hækka góðmálmar og hrávörur jafnan í verði á óvissutímum. Áhrif sprenginganna á fjármálamarkaði munu hins vegar að lokum ráðast nær alfarið af viðbrögðum stjórnvalda og almennings við þeim og því er enn allt óvíst í þessum efnum," segir í Morgunkorni.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.