Gengið hefur verið frá samkomulagi um kaup Hitaveitu Suðurnesja hf. á rafveituhluta Selfossveitna og er kaupverðið 615 milljónir króna. Miðað er við að 2/3 hlutar söluvirðis verði peningagreiðsla og 1/3 verði í formi eignarhluta í Hitaveitu Suðurnesja hf á genginu 2. Hluti peningagreiðslunnar verði greiðsla á hlutdeild Selfossveitna í nýrri aðveitustöð, sem er í byggingu í samstarfi við Rarik og flutningssvið Landsvirkjunar.

Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra HS, verður hið keypta nánar skilgreint á fylgiskjali en það verði í meginatriðum rafveitukerfi Selfossveitna, þ.m.t. sérhæfðar byggingar, rafveitulager, sérhæfð áhöld og tæki vegna rafveitureksturs, bifreiðar er tilheyra rekstri rafveituhluta veitnanna og annað er máli kann að skipta.

Síðan verður gerður sérstakur samningur, sem taki m.a. á eftirfarandi:

a) Leigu HS hf á húsnæði fyrir rekstur rafveitu á Selfossi.
b) Þjónustu HS hf vegna orkureikninga hitaveitu.
c) Þjónustu HS hf vegna mælaálesturs og mælaumsjónar.
d) Þjónustu HS hf vegna rafmagns hitaveitu.
e) Þjónustu HS hf vegna gatnalýsingar.
f) Frekara samstarf HS hf og Selfossveitna.
g) Samningum við þá starfsmenn Selfossveitna, sem yrðu starfsmenn HS hf.
h) Annað er málið kann að varða.

Aðilar stefna að því að samningur þeirra geti tekið gildi 1. ágúst 2004, sem þó gæti dregist til 1. september 2004, og að frá gildistöku samnings til áramóta gildi gjaldskrá raforku í Vestmannaeyjum á núverandi veitusvæði Selfossveitna, sem jafngildir nú um 10% lækkun. Ekki er gert ráð fyrir breytingum í starfsmannahaldi aðila.

Fulltrúar eigenda Selfossveitna líta á hlutabréfaeign í HS sem langtímafjárfestingu í öflugu orkufyrirtæki með mikla vaxtarmöguleika. Jafnframt eru bæjarfulltrúar sammála um að handbært fé vegna sölunnar verði nýtt til niðurgreiðslu skulda en einnig til brýnna verkefna í sveitarfélaginu s.s. til fjármögnunar á hinum nýja Sunnulækjarskóla.