HS Orka hefur lokið endurfjármögnun og tryggt sér 210 milljón dollara fjármögnun, eða andvirði hátt í 27 milljarða íslenskra króna, frá evrópskum fjármögnunarfyrirtækjum. Félagið segir tilgang fjármögnunarinnar vera að styrkja fyrirtækið í þeirri uppbyggingu sem framundan er, s.s. stækkun Reykjanesvirkjunar sem áformað er að ljúki um mitt ár 2022.

Frá þeim breytingum sem urðu á eignarhaldi HS Orku í maí 2019, þegar Jarðvarmi og evrópski innviðafjárfestingarsjóðurinn Ancala Partners eignuðust til jafns allt hlutafé félagsins, hefur verið unnið að því meta mögulega kosti til endurfjármögnunar á eldri lánum og stuðnings vaxtaráformum félagsins.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um í sumar stóð talverður styr um eignarhald HS Orku alveg síðan það var selt til einkafjárfesta árið 2007, en um tíma keypti félag lífeyrissjóðanna meirihlutann í félaginu. Fyrir ári bárust hins vegar fréttir af því að stærsti innviðafjárfestingasjóður heims hefði hug á að kaupa hlutinn sem félag lífeyrissjóðanna, Jarðvarmi, hafði forkaupsrétt á og nýtti sér að lokum.

Tómas Már Sigurðsson forstjóri segir það vera ánægjuefni fyrir fyrirtækið að ná þessari hagstæðu endurfjármögnun.

„Mikill áhugi evrópskra fjármögnunarfyrirtækja er viðurkenning á sterkri stöðu fyrirtækisins og framtíðarhorfum þess. Ný fjármögnun mun gera okkur kleift að ýta úr vör spennandi verkefnum sem við höfum verið að vinna að.“

Breska ráðgjafarfyrirtækið DC Advisory leiddi fjármögnunarvinnuna en breska lögfræðistofan Latham & Watkins og íslenska lögfræðistofan LOGOS veittu lögfræðilega ráðgjöf. HS Orka framleiðir endurnýjanlega orku á Íslandi og rekur Auðlindagarðinn, tvö jarðvarmaorkuver og eina vatnsaflsvirkjun. Kjarnastarfsemi fyrirtækisins er í framleiðslu á raforku og heitu vatni.

Auðlindagarðurinn sem hefur byggst upp í grennd við jarðvarmaorkuver HS Orku á Reykjanesi er jafnframt sagður einstakur á heimsvísu í tilkynningu félagsins.

Tilgangur hans er að nýta alla afgangsauðlindastrauma fyrirtækisins, með einkennisorðin „samfélag án sóunar“ að markmiði. Starfsemi Auðlindagarðsins byggir á sameiginlegum hagsmunum fyrirtækjanna sem þar starfa og nýta sér þessa strauma, þ.e. fjölnýtingu, nálægðinni við auðlindastrauma og nánu þverfaglegu samstarfi.

Hér má lesa frekari fréttir um eignarhald í HS Orku: