HS Orka tapaði 2,5 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2010 þegar búið var að taka tillit til tekna og fjármagnsgjalda. Fyrirtækið skilaði 612 milljóna króna hagnaði á sama tíma í fyrra. Lækkunin er sögð stafa af lækkun á framtíðarvirði raforkusamninga sem HS Orka hefur gert við stóriðju.

Lækkunin nemur um 4,1 milljarði króna en umræddir samningar eru beintengdir við þróun heimsmarkaðsverðs á áli. Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri fyrirtækisins sem birt var í dag.

Eignir HS Orka voru 40,3 milljarða króna virði í lok júní síðastliðins en skuldir félagsins námu 26,4 milljörðum króna á sama tíma. Eigið fé var því 13,9 milljarðar króna. HS Orka er eina orkufyrirtæki landsins sem er í einkaeigu en kanadíska fyrirtækið Magma Energy á um 98% hlut.