HS Orka hlaut í gær, 5. júní, á Alþjóðlega umhverfisdeginum, umhverfisverðlaun Energy Globe Award sem veitt eru þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa skarað fram úr í umhverfismálum. Í ár voru 178 verkefni valin víðsvegar að úr heiminum og var Auðlindagarðurinn valinn besta íslenska verkefnið.

„Við erum hrærð yfir þessum verðlaunum og þeirri viðurkenningu sem Auðlindagarðinn er að fá á alþjóðavísu. Hugmyndafræðin að baki Auðlindagarðinum er einföld, það er að segja að það er ekkert sem heitir sóun. Allir straumar sem falla til við orkuvinnslu hjá okkur eru nýttir af fyrirtækjum í Auðlindagarðinum, sem eru sjö í dag og fer fjölgandi,” segir Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku. „Albert Albertsson er hugmyndasmiðurinn að baki Auðlindagarðinum og okkar lærifaðir. Albert hefur alltaf bent okkur á að fjölþætt nýting auðlinda sé einfaldlega heilbrigð skynsemi,” bætir hann við.

„Nýleg uppfærsla á úttektinni á Auðlindagarðinum sýnir alveg ótrúlegar tölur um umfang starfseminnar, það er fyrirtækjanna sem lifa og hrærast í kringum orkuverin. Það starfa um sextíu manns hjá HS Orku en í Auðlindagarðinum starfa hins vegar um 900 manns í nokkrum fyrirtækjum. Þetta eru fyrirtæki sem lifa og þrífast á því að orkuverin séu til staðar.Þetta er bein afleidd starfsemi af orkuvinnslunni og þetta er allt saman nýting á auðlindum sem annars væri ekki til staðar,“ sagði Ásgeir í viðtali við Viðskiptablaðið í mars.

Stærsta einingin í Auðlindagarðinum er Bláa lónið, það er ferðaþjónustuhlið fyrirtækisins, hótelrekstur, snyrtivöruframleiðsla sem og rannsóknir og þróun þess. „Þar er einnig metanólframleiðsla hjá Carbon Recycling. Þar er matvælaframleiðsla hjá Haustaki og Há­ teigi úti á Reykjanesi og Stolt Seafarm á Reykjanesinu, og þarna er snyrtivöruframleiðsla hjá Orf líftækni. Þannig að í grunninn er þetta ferðaþjónusta, snyrtivörur, matvæli og síðan eru nýjar einingar að bætast við í Auðlindagarðinn á næstunni,“ bætti hann við.