Hlutur samlagshlutafélagsins Jarðvarma í HS Orku er metinn á um 16,3 milljarða króna í ársreikningi félagsins fyrir árið 2017. Jarðvarmi, sem er í eigu íslenskra lífeyrissjóða, á 33,4% hlut í HS Orku sem þýðir að félagið metur heildarverðmæti fyrirtækisins á um 48,8 milljarða króna eða sem nemur 6,22 kr. á hlut. Félagið lækkar verðmat sitt um 10,8% á milli ára eða um tæplega 2 milljarða króna.

Samkvæmt ársreikningnum var stærsta einstaka breytingin til lækkunar vegna áhrifa af styrkingu Bandaríkjadollars gagnvart krónu, sem olli 6,5% lækkun á verðmati á HS Orku. Aðrir eigendur HS Orku eru Magma Energy með 53,9% hlut og fagfjárfestasjóðurinn ORK með 12,7% hlut en sá sjóður er einnig í eigu lífeyrissjóða.