Hlutabréf í HS Orku gætu verið skráð á innlendan hlutabréfamarkað fari 14 lífeyrissjóðir sem í gær keyptu 25% hlut í fyrirtækinu fram á það. Slík skráning yrði þó háð því skilyrði að Magma Sweden, eigandi að 75% eignarhlut í HS Orku, geti haldið yfirráðum sínum í fyrirtækinu eftir skráningu.

Í gær var tilkynnt um að Jarðvarmi slhf., samlagsfélag í eigu 14 lífeyrissjóða, hefði keypt 25% hlut í HS Orku af Magma Sweden á 8,1 milljarð króna. Til viðbótar fær Jarðvarmi kauprétt á frekari hlutum, sem gæti tryggt því 8,4% hlut í HS Orku til viðbótar, fyrir 4,7 milljarða króna. Sú upphæð er þó bundin niðurstöðu gerðardóms í Svíþjóð vegna deilna HS Orku og Norðuráls um orkusölu til Helguvíkur. Kaupréttarsamkomulagið gildir til 10. febrúar 2012.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs, fór fyrir viðræðunefnd sjóðanna sem gerði samninginn. Hann segir útfærslur á skráningu í kauphöll vera í skoðun. „Viðræður hafa átt sér stað við Kauphöllina um mögulegar leiðir, þar sem skráning kann líka að hafa áhrif á þá minnihlutavernd sem lífeyrissjóðunum er tryggð í fyrirhuguðu hluthafasamkomulagi. Í Svíþjóð og Noregi eru fjöldi dæma um fyrirtæki þar sem aðeins hluti af bréfunum er skráður á markað.“ Hann segir þó ekki ljóst hvort eða hvenær af skráningu HS Orku verður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, miðvikudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.