HS Orka og Jarðboranir munu í dag undirrita samning um borun á allt að 5 kílómetra djúpri háhitaholu á Reykjanesi, þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu í dag. Samningurinn er annar áfanginn í Íslenska djúpborunarverkefninu (IDDP).  HS Orka leiðir verkefnið í samstarfi við norska olíufélagið Statoil, auk annarra fyrirtækja innan IDDP samstarfsins.

Íslenska djúpborunarverkefnið (IDDP) fékk nýlega styrk frá rannsóknaráætlun Evrópusambandsins uppá 1,3 milljarða króna til verkefnisins. Auk HS Orku eru Ísor, Landsvirkjun, Georg, Statoil ásamt fleiri evrópskum fyrirtækjum þátttakendur í verkefninu.

Stefnt er að því að holan verði dýpsta og heitasta vinnsluhola jarðvarma á Íslandi með hita allt að 500°C  hitastigi.  Ráðgert er að borun holunnar fari fram á síðari hluta þessa árs.

HS Orka leggur til verksins holu 15 á Reykjanesi sem er  2,5 kílómetra djúp og er ætlunin að dýpka holuna í allt að 5 kílómetra. Samningurinn er hluti af öðrum áfanga íslenska djúpborunarverkefnisins (IDDP-2) en áður hefur verið reynt við djúpborun á Kröflusvæðinu. 

Í tilkynningunni segir jafnframt að tilgangur verkefnisins sé að sýna fram á að framleiða megi orku úr djúplægum jarðhitakerfum sem gæti aukið orkuframleiðslu háhitasvæða umtalsvert og þar með dregið úr landrýmisþörf orkuvinnslunnar.