Gerðardómur í Svíþjóð mun taka fyrir deilur Norðuráls við HS Orku um afhendingu orku og það verð sem fyrirtækið á að greiða fyrir hana 27. maí næstkomandi. Norðurál stefndi HS Orku 19. júlí 2010 vegna ágreinings um túlkun ákvæða samninga félaganna um orkuöflun fyrir álverið í Helguvík sem Norðurál vonast til að geta byggt.

Norðurál vill að HS Orka standi við samninginn eins og hann var gerður árið 2007 og afhendi sér orku í samræmi við það sem þar kemur fram. Stjórnendur HS Orku eru hins vegar ekki sammála túlkun Norðuráls á ákvæðum samningsins um magn raforku sem á að afhenda og hvaða verð eigi að greiða fyrir hana.

Í ársreikningi HS Orku segir að málið verði tekið fyrir í gerðardómi í Svíþjóð 27. maí. Þar segir einnig að „[ó]vissa er uppi um niðurstöðu gerðardómsins, sem leiðir til óvissu um hvort raforkan verði seld til álversins eða til annarra viðskiptavina“.