Deila HS Orku og HS Veitna um greiðslur á lífeyrisskuldbindingum mun fara fyrir Hæstarétt en rétturinn féllst í dag á áfrýjunarleyfi fyrrnefnda aðilans þar sem málið hefði almennt gildi á sviði félaga-, samkeppnis- og samningaréttar.

Fyrirrennari HS Orku varð til við sameiningu Hitaveitu Suðurnesja, Rafveitu Hafnarfjarðar og Bæjarveitna Vestmannaeyja í upphafi þessarar aldar. Árið 2008 var HS Veitum skipt úr hinu sameinaða félagi og nafni þess breytt úr Hitaveitu Suðurnesja í HS Orku.

Fram til ársins 2001 áttu starfsmenn fyrirtækjanna aðild að lífeyrissjóðum sem byggðu á eftirmannsreglu en í henni felst að lífeyrisgreiðslur eru ákveðnar sem eftirlaun og taka mið af starftíma og þeim launum sem greidd eru nú fyrir sama starf. Er það óháð fjárhæð og ávöxtun iðgjalda. Mun HS Orka þurfa að greiða nokkuð lengi af slíkum skuldbindingum.

Árið 2011, um þremur árum eftir að félögunum var skipt upp, gerðu þau með sér samning um að HS Veitur myndi taka á sig að greiða sextíu prósent þessari lífeyrisskuldbindingu HS Orku. Samkvæmt ársreikningi HS Orku fyrir árið 2017 er skráð langtímakrafa á HS Veitur vegna þessa upp á 742,5 milljónir króna. Ágreiningur fyrirtækjanna snerist um það hvort umræddur samningur væri gildur og hvort HS Veitum væri skylt að greiða HS Orku téðan kostnað.

Héraðsdómur féllst á kröfu HS Orku um að samningurinn skyldi standa en Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu við. Var það meðal annars gert á þeim grundvelli að HS Veitur væri fyrirtæki í sérleyfisrekstri og gæti því ekki tekið skuldbindinguna á sig nema að eðlilegt gagngjald kæmi fyrir.

„Því er ekki haldið fram að [HS Veitur] hafi fengið greiðslu eða ívilnun gegn því að taka ábyrðina á sig og verður að líta svo á að þessi gerningur feli í sér niðurgreiðslu á kostnaði félags í samkeppnisrekstri með fé félags er nýtur sérleyfis til starfsemi sinnar og er háð gjaldskrá sem á að tryggja félaginu greiðslu alls rekstrarkostnaðar. Niðurgreiðsla þessi skekkir samkeppnisstöðu á markaði og veitir [HS Orku] óeðlilegt forskot á aðra aðila,“ segir í dómi Landsréttar.

HS Orka fór fram á að áfrýjunarleyfi fengist og sem fyrr segir samþykkti Hæstiréttur í dag að taka málið fyrir.