HS Orka hf. og Jarðboranir hf. hafa undirritað verksamning um boranir vegna gufuöflunar fyrir jarðvarmavirkjanir HS Orku á Reykjanesi. Samningurinn tekur til borunar á þremur borholum með möguleika á fimm holum til viðbótar, að því er segir í tilkynningu.

Þar segir að tilboð Jarðboranna hafi reynst hagstæðast og því var ákveðið að ganga til samninga við fyrirtækið um verkið. Framkvæmdir við verkið munu hefjast nú í desember.

Haft er eftir Ásgeir Margeirssyni, forstjóra HS Orku, að með þessu verkefni sé markað mikilvægt skref í framtíðarrekstri orkuveranna og annarra fyrirtækja í Auðlindagarðinum í Svartsengi og á Reykjanesi.

Jarðboranir skiluðu um 567 milljóna króna hagnaði í fyrra og hefur mikill viðsnúningur orðið á rekstri fyrirtækisins frá árinu 2012 þegar félagið tapaði 649 milljónum króna.