HS Orka skilaði rétt tæplega 600 milljóna króna hagnaði í fyrra, en árið 2011 var 936,8 milljóna króna tap á rekstri fyrirtækisins. Velta fyrirtækisins dróst saman milli ára og fór úr 7,4 milljörðum í 6,9 milljarða. Kostnaður við framleiðslu, sölu og annan rekstur dróst hins vegar meira saman og jókst rekstrarhagnaður fyrirtækisins því um 153 milljónir króna milli ára og var 1.855,3 milljónir í fyrra.

Það sem mestu máli skipti fyrir afkomu fyrirtækisins var að áhrif breytinga á virði framvirkra orkusölusamninga voru aðeins neikvæð um 200,7 milljónir króna í fyrra, en árið 2011 voru neikvæð áhrif þessa liðs í rekstrarreikningi upp á 1.465,2 milljónir.

Hagnaður fyrir skatta nam 707,3 milljónum króna en í fyrra var tap fyrir skatta upp á 1.159,9 milljónir króna.

Eignir fyrirtækisins námu 49,8 milljörðum króna um síðustu áramót, en voru 39,9 milljarðar ári áður. Skuldir stóðu því sem næst í stað milli ára og námu 23,2 milljörðum króna í lok síðasta árs. Eigið fé jókst því um ríflega tíu milljarða króna og var 26,6 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var 53%. Í tilkynningunni kemur fram að á árinu nýtti Jarðvarmi slhf. rétt sinn til að auka hlut sinn í HS Orku úr 25% upp í 33,4%, vegna þessa jókst eigið fé um 4,7 milljarða. og var hið nýja hlutafé greitt inn í lok febrúar 2012.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að orkuver félagsins voru endurmetin í lok ársins og nemur heildarverðmæti þeirra að endurmati loknu 31,5 milljarði, sem er endurmatshækkun upp á 6,1 milljarð. Þetta gerir að heildarhagnaður að frádregnum skattaáhrifum endurmatsins er 5,5 milljarðar.

Áðurnefnd veltulækkun skýrist af nokkrum þáttum, en þyngst vegur að samningur um sölu á 35 megavöttum til Norðuráls Grundartanga rann út 1. október 2011. Á móti því kemur að samningur við Landsvirkjun um kaup á 8 megavöttum á ári rann út nú um síðustu áramót. Mismunurinn (27 megavött) hefur síðan að mestu verið seldur á almennum markaði en þar er nýtingartíminn talsvert lægri. Flutningskostnaður lækkar síðan þar sem ekki er lengur greitt fyrir flutning þessara 35 megavatta til Norðuráls en jafnvirði þess kostnaðar var áður hluti teknanna.