HS Orka óskaði í nóvember síðastliðnum eftir formlegum viðræðum um hugsanleg kaup á Fallorku, dótturfélagi Norðurorku á Akureyri. Bæjarráð Akureyrar telur þó ekki tímabært að ræða hugsanlega sölu á Fallorku, að því er fram kom á bæjarráðsfundi í gær. Dan Jens Brynjarsson, sviðsstjóri fjársýslusviðs og Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Fallorka, var stofnuð árið 2002, á og rekur fjórar virkjanir á Norðurlandi. Um er að ræða Djúpadalsvirkjanir I og II ásamt Glerárvirkjun I og II. Félagið stendur nú að rannsóknum á fleiri virkjunarkostum í Eyjafirði, meðal annars í Djúpadal, þar sem félagið hefur fengið formlegt rannsóknarleyfi frá Orkustofnun. Þá hefur félagið kannað möguleika á beislun vindorku á láglendi við Eyjafjörð.

Hagnaður Fallorku nam 68,6 milljónum króna árið 2019, samkvæmt ársreikningi. Tekjur félagsins voru tæpar 963 milljónir króna og rekstrarhagnaður 151,5 milljónir króna. Fallorka er að fullu í eigu Norðurorku sem rekur rafveitu, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu á Akureyri og víðar á Eyjafjarðarsvæðinu. Akureyrarbær á 98,27% hlut í Norðurorku.

Í erindi Tómas Más Sigurðssonar, forstjóra HS Orku, frá því um miðjan nóvember kemur fram að félagið hafi síðasta sumar rætt óformlega við forsvarsmenn Fallorku og bæjarstjóra Akureyrarbæjar um það hvort áhugi væri að opna viðræður um hugsanleg kaup á hluta fyrirtækisins eða í heild.

Rætt hafi verið um verkefni Fallorku og hugsanlega samlegð í rekstri sameinaðs félags. Einnig hafi verið fjallað um uppbyggingu atvinnustarfsemi samhliða auðlindanýtingu áþekkt því sem þróast hefur á virkjanasvæðum HS Orku í Auðlindagarði á Reykjanesi.

„Við þær aðstæður sem nú eru á orkumarkaði, með dalandi orkunotkun, hefur verið og er unnið markvisst að því að efla Auðlindagarð á Reykjanessvæðinu og gæti miðlun þekkingar og reynslu HS Orku á þessu sviði nýst við uppbyggingarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu.“

HS orka sjái jafnframt tækifæri í sölu- og markaðsstarfi félaganna en saman stæðu þau sterkar við að afla nýrra viðskipta.

„HS Orka hefur samið um og stjórnar framleiðslu margra smærri vatnsaflsvirkjana og hámarkar verðmæti framleiðslu þeirra á markaði, þekking sem gæti nýst allri framleiðslu félaganna.“

Félagið telji einnig áhugavert að halda áfram starfi Fallorku við að þróa þá virkjunarkosti sem Fallorka hefur rannsóknarleyfi fyrir og er með í rammaáætlun ásamt því að skoða og meta önnur tækifæri á orkusviði sem fyrirtækið hefur talið álitlegt eða eru til staðar á Eyjafjarðarsvæðinu.