Formaður og varaformaður stjórnar Hitaveitu Suðurnesja hf., þeir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, vilja - í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríkir um eignarhald á HS - að breytingum á orkulögum verði flýtt sem kostur er.

Þetta kemur fram í umsögn þeirra til iðnaðarnefndar Alþingis vegna orkufrumvarps iðnaðaráðherra. Þeir eru mun jákvæðari í garð orkufrumvarpsins en forstjóri HS, Júlíus Jónsson. Hann segir í umsögn sinni um frumvarpið að í því felist breytingar til hins verra.

„Fyrirtæki sem hafa verið byggð upp af hagkvæmni og ráðdeild um áratuga skeið verða jafnvel fyrir alvarlegum skakkaföllum sem ekki er séð fyrir endann á," segir hann í umsögn sinni.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra mælti fyrir orkufrumvarpinu á Alþingi í febrúar síðastliðnum og að lokinni fyrstu umræðu var því vísað til umfjöllunar í iðnaðarnefnd.

Katrín Júlíusdóttir, formaður nefndarinnar, segir að umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið sé á lokastigi og kveðst eiga von á því að frumvarpið verði afgreitt frá Alþingi fyrir þinglok í sumar.

Tímabil afnotaréttar verði lengt í 99 ár

Í umsögn Hitaveitu Suðurnesja, sem er undirrituð af forstjóranum Júlíusi Jónssyni, er meðal annars gagnrýnt að skipta eigi upp orkufyrirtækjum í sérleyfisstarfsemi annars vegar og samkeppnisstarfsemi hins vegar.

„Rétt er að vekja á því sérstaka athygli að slík uppskipting mun hafa í för með sér verulegt rekstrarlegt óhagræði og jafnvel verulega aukinn kostnað [...]," segir m.a. í umsögninni, sem dagsett er 8. apríl.

Í umsögn formanns og varaformanns stjórnar HS, sem dagsett er 21. apríl,  er hins vegar fallist á þau sjónarmið frumvarpsins að uppskipting hljóti að koma í veg fyrir samkeppnishindranir þrátt fyrir að slíkt muni hafa kostnað í för með sér.

„Tekið skal undir að aðskilnaður samkeppnis- og sérleyfisþátta og meirihlutaeignarhald opinberra aðila yfir fyrirtækjum sem stunda sérleyfisstarfsemi mun auðvelda markaðsvæðingu raforkugeirans," segir í umsögninni.

Þeir gera þó ýmsar athugasemdir við frumvarpið. Til að mynda leggja þeir til að tímabil afnotaréttar verði lengt í 99 ár, úr 65 árum, og að látið verði nægja að kveða á um meirihlutaeigu opinberra aðila, en ekki 2/3 eigu opinberra aðila eins og lagt er til í frumvarpinu.

Eignarhlutur OR verði fluttur til sérleyfishlutans

Í lokin segja þeir að í ljósi þeirrar flóknu stöðu og óvissu sem uppi er um eignarhald á HS hf. vegna viðskipta Orkuveitu Reykjavíkur í HS hf., telji þeir brýnt að breytingum á fyrirliggjandi orkulögum verði flýtt sem kostur er.

Með því að tala um viðskipti OR í HS eru þeir að vísa til niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins frá því um miðjan apríl þar sem einungis er heimilaður 3% eignarhlutur OR í HS. OR á nú 16,5% hlut í HS en hafði í hyggju að auka hlutinn með kaupum á hlut Hafnarfjarðar.

„Með því að flytja eignarhlut OR yfir til sérleyfisfyrirtækis HS hf., sem sjái um dreifingarþáttinn og væri þá í meirihlutaeigu a.m.k. sveitarfélaganna Reykjanesbæjar og Reykjavíkur (OR) væri unnt að leysa úr þeim vanda sem upp er kominn," segir í umsögninni.

Reykjanesbær á 34,7% hlut í HS og Geysir Green Energy á 32% hlut. Aðrir eiga minna.