*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 28. febrúar 2020 12:03

HS Veitur hagnast um 1,6 milljarða

Hagnaður orkudreifingarfyrirtækisins jókst um 133% milli ára, á sama tíma og eiginfjárhlutfallið hækkaði um ríflega 3 prósentur.

Ritstjórn
Júlíus Jónsson er forstjóri HS Veitna.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður HS Veitna jókst um 133,5% milli áranna 2018 og 2019, og fór hann úr tæplega 700 milljónum króna í tæplega 1,6 milljarða króna.

Rekstrartekjur félagsins jukust á sama tíma um 3,5%, úr rétt rúmlega 6,9 milljörðum króna í tæplega 7,2 milljarða, meðan heildarrekstrarkostnaður félagsins jókst um 0,9%, í 5.445 milljónir króna. Þar af jókst kostnaðarverð sölu um 1,9%, í 4,7 milljónir króna en annar rekstrarkostnaður dróst saman um 4,9% úr 815,9 milljónum í tæplega 776 milljónir króna.

Eigið fé HS Veitna jókst um 8,2% á árinu, úr 13,3 milljörðum króna í 14,4 milljarða, meðan skuldirnar drógust saman um 4,7%, úr 17,3 milljörðum króna í 16,5 milljarða. Þar með jukust eignirnar um 0,9%, úr rétt tæplega 30,6 milljörðum í tæplega 30,9 milljarða, og því hækkaði eiginfjárhlutfallið úr 43,5% í 46,7% á árinu.

HS Veitur var stofnað 1. desember 2008 með skiptingu Hitaveitu Suðurnesja í HS Orku og HS Veitur, en síðarnefnda félagið er að ríflega helmingshluta í eigu Reykjanesbæjar, HSV Eignarhaldsfélag slhf er með 34,38% hlut, Hafnarfjarðarbær með 15,42% og Suðurnesjabær með 0,1% hlut.