Tap HS veitna hf. nam 255 milljónum króna í fyrra. Í nýbirtum reikningum segir að tapið skýrist að mestu leyti af verðlagsþróun ársins 2009. Allar skuldir félagsins séu verðtryggðar. Einnig hafi tekjuskattsskuldbindingar hækkað vegna hærra skatthlutfalls.

Hitaveitu Suðurnesja hf. var á árinu 2008 skipt í tvö félög, HS Orku og HS veitur, sem tók yfir einkaleyfisstarfsemi Hitaveitu Suðurnesja. Skiptingin miðaðist við 31. desember 2008 og sýnir reikningur fyrir árið 2009 því fyrsta rekstrarár HS Veitna.

Rekstrartekjur HS veitna í fyrra námu tæpum 4 milljörðum króna. Þar af voru tekjur af raforkudreifingu rétt rúmir 2 milljarðar króna, tekjur af dreifingu og sölu á heitu vatni 1,3 milljarðar króna og tekjur af sölu og dreifingu á fersku vanti 377 milljónir króna.

Kostnaður vegna sölu nam 2,8 milljörðum króna og annar rekstrarkostnaður nam 551 milljón króna. Hrein fjármagnsgjöld voru í fyrra 843 milljónir króna. Bókfærðar eignir Hs veitna nema 16,8 milljörðum króna í lok síðasta árs. Skuldir nema 8,3 milljarðar og er eiginfjárhlutfall 50,9%.

HS veitur hf. sjá um dreifingu heits og kalds vatns og rafmagns á þjónustusvæði sem nær yfir öll Suðurnes, Hafnarfjörð, hluta Garðabæjar, Álftanes, Árborg og allt til Vestmannaeyja. HS veitur hf. eiga einnig kaldavatnslindirnar sem heimili og fyrirtæki á Suðurnesjum nýta. Reykjanesbær er meirihlutaeigandi HS veitna. Orkuveita Reykjavíkur á tæp 17% eins og Hafnarfjarðarbær.