Alþjóðlegi bankinn HSBC ætlar að selja allan rekstur sinn í Kanada til Royal Bank of Canada á 10 milljarða Bandaríkjadala.

Þá áætlar bankinn að hagnaður af sölunni muni nema 5,7 milljörðum dala fyrir skatta, en gengi bréfa félagsins hækkaði um 5% við fregnirnar.

Talið er líklegt að bankinn skili hluthöfum sínum hluta af söluhagnaðinum í formi arðs eða með endurkaupum á eigin bréfum, en áætlað er að kaupin gangi í gegn síðla árs 2023.

Þar að auki ætlar HSBC að loka 114 útibúum í Bretlandi frá og með apríl á næsta ári. Bankinn er í dag með 441 útibú í Bretlandi.

Bankinn stefnir á að leggja aukna áherslu á markaði í Asíu og á öðrum vaxtarsvæðum.