HSBC, stærsti banki Bretlands undirbýr afskriftir upp á 16 milljarða bandaríkjadala eða um 1000 milljarða íslenskra króna. Bankinn mun engu að síður skila hagnaði fyrir starfsárið 2007 eftir því sem BBC greinir frá. Afskriftir bankans má helst rekja til undirlánamarkaða í Bandaríkjunum.

Búist er við að hagnaður bankans verði um 25 milljarðar dala eða rúmlega 1600 milljarðar ísl. króna og þannig munu arðgreiðslur bankans aukast frá árinu áður.

Munu einbeita sér að Asíu

Á vef BBC kemur fram að stjórn bankans mun leggja það til að umsvif bankans í Bandaríkjunum verði minnkuð en á sama tíma verði umsvifin aukin í Asíu. Stjórn bankans telur að fleiri tækifæri liggi í fjármálamörkuðum í Asíu á næstu misserum.

Uppgjör bankans verður kynnt á aðalfundi hans á morgun, mánudag.