Gögn, sem eiga að innihalda upplýsingar um íslenska viðskiptavini í útibúi HSBC-bankans í Sviss, eru ekki komin hingað til lands. Þetta kemur fram á fréttavef Ríkisútvarpsins . Er þar haft eftir Bryndísi Karlsdóttir, skattrannsókjarstjóra, að málið sé nú í vinnslu innan embættisins en frekari upplýsingar fást ekki uppgefnar að svo stöddu.

Í eldri frétt Ríkisútvarpsins segir að Eva Joly, sérfræðingur í rannsóknum fjármálaglæpa og þingmaður á Evrópuþinginu, hafi sett sig í „samband við manninn sem lak gögnum um skattaundanskot tengd HSBC og spurði hann hvort hann væri tilbúinn til að láta íslensk stjórnvöld fá gögnin sem varða Íslendinga án endurgjalds. Hann er tilbúinn til þess og býður Eva Joly fram aðstoð við að setja sig í samband við hann."

HSBC er sagður hafa aðstoðað einstaklinga og fyrirtæki við að lágmarka skattgreiðslur sínar á ólögmætan hátt.