Hlutabréfaverð stærsta banka Ítalíu UniCredit hefur lækkað um 2,4% það sem af er degi eftir að Bloomberg greindi frá því í gær að bankastjóri bankans, Jean Pierre Mustier, ætti í viðræðum við stærsta banka Evrópu, HSBC, um að taka við sem bankastjóri.

Stjórn HSBC hefur verið í leit að nýjum bankastjóra frá því í ágúst á síðasta ári þegar John Flint var sagt uppstörfum en stjórnin gaf þá út að hún myndi gefa sér 6-12 mánuði í leit að nýjum bankastjóra. Hingað til hefur Noel Quinn, sem hefur verið starfandi bankastjóri HSBC verið talinn líklegastur til þess að hreppa hnossið en nú þykir Mustier einnig mjög líklegur.

HSBC tilkynnti fyrr í vikunni stefnubreytingu sem mun m.a. fela í sér að 35.000 starfsmönnum verður sagt upp störfum á þremur árum. Stefnubreytingin sem er sú þriðja sem bankinn fer í gegn um frá hruni er ætlað að draga úr umsvifum bankans í Evrópu og Bandaríkjunum.

Mustier sem er 59 ára gamall hefur gegnt starfi bankastjóra UniCredit frá árinu 2016 en á þeim tíma hefur honum tekist að hreinsa til á efnahagsreikningi bankans auk þess sem ráðist hefur verið miklar hagræðingaraðgerðir þar sem 14.000 manns hefur verið sagt upp störfum. Á sama tíma og flestir evrópskir bankar áttu erfitt uppdráttar á síðasta ári hækkaði hlutabréfaverð UniCredit um yfir 30% á árinu.