*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Erlent 25. maí 2021 10:40

HSBC mælir með íslenskum hlutabréfum

HSBC telur að íslenskir hlutabréfamarkaðir eigi enn mikið inni þar sem að ferðamannaiðnaðurinn sé farinn að ranka við sér aftur.

Snær Snæbjörnsson
Bankinn er vongóður um horfur Íslands.
european pressphoto agency

HSBC, næst stærsti banki Evrópu, hvetur fjárfesta til að kaupa íslensk verðbréf í ljósi mikils vaxtar á hlutabréfamarkaði og telur að enn meiri vöxtur sé í vændum. Barron´s, tímarit Dow Jones, greinir frá.

Í fréttinni er sagt að MSCI Íslandsvísitalan (MSCI Iceland Index) hafi tvöfaldast í stærð, eftir að hafa náð lágpunkti sínum í mars á síðasta ári, og vaxið um 21,7%. HSBC telur að íslensk hlutabréf eigi enn mikið inni. Því til stuðnings er bent á að ferðamannaiðnaðurinn sé byrjaður að taka við sér og hagvöxt umfram allar spár. Því sé upplagt fyrir fjárfesta að líta til Íslands.

Sagt er að ferðamannaiðnaðurinn muni leiða vöxtinn og að hann fari að sækja í sig veðrið á seinni hluta ársins. Því til rökstuðnings er bent á að landið sé opið fyrir bólusettum ferðamönnum og að náðst hafi góð tök á heimsfaraldrinum. Þá eru ferðamenn frá Bandaríkjunum og Bretlandi um 40% allra þeirra sem að heimsækja Ísland, þar sem að bólusetningar ganga vel.