Breski bankinn HSBC hefur átt í viðræðum við China Investment Corporation (CIC) á undanförnum mánuðum um samstarf, en CIC er stærsti fjárfestingasjóður kínverska ríkisins. Þetta kemur fram í Sunday Telegraph.

Breski bankinn HSBC hefur átt í viðræðum við China Investment Corporation (CIC) á undanförnum mánuðum um samstarf, en CIC er stærsti fjárfestingasjóður kínverska ríkisins. Þetta kemur fram í Sunday Telegraph.

Viðræðurnar snúa að því að CIC kaupi hluti í HSBC á markaði, en fjármögnunarþörf HSBC er ekki meiri en svo að gefa þurfi út nýtt hlutafé á næstunni, líkt og bankar á borð við Citigroup, RBS, Morgan Stanley og HBOS hafa gert.

Bréf í HSBC hafa lækkað um 6% á þessu ári, en FTSE 350-fjármálavísitalan hefur á sama tíma lækkað um 28%. Þrátt fyrir að HSBC hafi verið fyrsta fjármálastofnunin til að tilkynna um áhættusama stöðu í bandarískum undirmálslánum, eru fáir bankar jafn vel fjármagnaðir.

Talsmaður bankans segir í samtali við Sunday Telegraph að tilgangurinn með viðræðunum við CIC sé að breikka hluthafahóp bankans, ekki síst á mikilvægum vaxtarmörkuðum.

HSBC er þegar skráð á hlutabréfamarkað í Hong Kong. Yrði af kaupum CIC á hlut í bankanum færi væntanlega fram skráning á kauphöllinni í Shanghai, en bankinn yrði þá fyrsta erlenda fyrirtækið til að skrá sig á markað þar í landi.