Bankinn HSBC hefur ákveðið að selja útibú sín í Argentínu með tæplega milljarð dala tapi eftir margra ára baráttu við gengi argentínska gjaldmiðilsins. Ársverðbólgan þar í landi mældist 276,2% í síðasta mánuði og er sú hæsta í heiminum.

Samkvæmt fréttamiðlinum BBC mun fjárfestingasamsteypan Grup Financiero Galicia taka við rekstri þeirra hundrað útibúa HSBC Argentina þar sem rúmlega 3.100 manns starfa.

HSBC hefur verið starfrækt í Argentínu síðan 1997 en sama ár færði bankinn sig einnig yfir til Brasilíu þegar það tók yfir starfsemi brasilíska bankans Bamerindus. Bankastarfsemin í Brasilíu var svo seld árið 2015 og starfar HSBC þar nú einungis sem fjárfestingarbanki.

Noel Quinn, forstjóri HSBC í Argentínu, segist ánægður með söluna þrátt fyrir mikið tap. „Þessi viðskipti eru mikilvægt skref í stefnu okkar og gerir okkur kleift að einbeita okkur að verðmætari tækifærum í öðrum löndum.“