HSBC hefur nú varað við því að samdráttur verði í alheimsbúskapnum á næsta ári. Í viðamikilli greiningu spáir bankinn því að á næsta ári verði samdráttur ríkra landa og landa á alheimsvísu sá mesti síðan í kreppunni miklu. Telegraph greinir frá þessu.

Þá spáir bankinn því að næsta ár verði það versta í Bretlandi frá árinu 1947, og telur að Englandsbanki muni neyðast til að lækka vexti niður í 0,25%. Spár bankans eru mun svartsýnni en aðrar spár, til dæmis frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Stephen King, aðalhagfræðingur HSBC, segir að á tímabili hafi litið út fyrir að fjármálakreppan væri einungis vandamál fyrir helstu iðnríki heimsins, en að á síðustu þremur mánuðum hafi sú kenning farið út í buskann. Bankinn hafi því endurskoðað spá sína fyrir mörg nýmarkaðsríki til verri vegar og búist nú við því að samdráttur verði í heildarheimsbúskapnum á árinu 2009, sem hann segir vera óvenjulegt fyrir nútímann.

King segir það mikið áhyggjuefni ef fjölskyldur og fyrirtæki liggi á peningum í stað þess að eyða þeim, og það valdi ógn um verðhjöðnun í mörgum ríkum löndum. Hann segir að það stigmagni einungis vandann ef allur peningur er settur undir koddann. Það hafi að hluta til magnað áhrif kreppunnar miklu.