Breski bankinn HSBC viðurkenndi í dag að bankinn hefði glatað tölvuupplýsingum um 370 þúsund viðskiptavini sem vistaðar voru á hörðum disk. Diskurinn týndist fyrir fjórum vikum þegar hann var sendur frá höfuðstöðvum bankans í Southampton. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Meðal upplýsinga á tölvudisknum voru nöfn viðskiptavina, fæðingardagar  og upplýsingar líftryggingar viðskiptavina. Bankinn segir hins vegar að þar sem engin heimilisföng né upplýsingar um bankareikninga séu á disknum séu litlar líkur á mögulegu svindli eða stuldi frá viðskiptavinum bankans.

Talsmaður bankans sagði við BBC að verið væri að rannsaka málið. „Það eru engar nákvæmar fjármálaupplýsingar né upplýsingar um inneignir manna. Það eru heldur engin heimilisföng,“ sagði talsmaður bankans.

Breska fjármálaeftirlitið (FSA) hefur þegar fengið upplýsingar um hvarfið og mun líklega hefja  rannsókn á atvikinu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist í Bretlandi en í fyrra týndust opinberar upplýsingar frá breska skattinum þegar tölvugögn voru flutt frá London til Newcastle. Þau gögn innihéldu nákvæmar upplýsingar um barnabætur og var að finna upplýsingar um 25 milljón manns á disknum.

Þau gögn hafa enn ekki fundist.