*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 18. nóvember 2021 12:54

HSE Consulting verður umboðsaðili SSG

SSG er alþjóðlegt fyrirtæki sem býður upp á gagnvirk öryggisnámskeið á netinu.

Ritstjórn
Eyþór Sigfússon, framkvæmdastjóri HSE Consulting og J. Snæfríður Einarsdóttir, ráðgjafi hjá HSE Consulting.
Aðsend mynd

Íslenska ráðgjafafyrirtækið HSE Consulting hefur undirritað samning um að gerast umboðsaðili Standard Solutions Group (SSG). Fram kemur í fréttatilkynningu frá HSE Consulting að með samningnum verði íslenskum fyrirtækjum, verktökum og starfsmönnum þeirra gert auðveldara fyrir að tryggja að allir starfsmenn séu rétt upplýstir og þjálfaðir í samræmi við lög um heilsu og öryggi á vinnustað.

SSG er sænskt fyrirtæki sem er í eigu nokkurra lykilfyrirtækja í sænskri stóriðju. Á meðal viðskiptavina þess eru fyrirtæki eins og Volvo, General Electric og Siemens. Fyrirtækið býður upp á notendavænar veflausnir en öryggisnámskeiðin þeirra eru í boði á sjö tungumálum, gagnvirk og fara fram á netinu.

SSG er alþjóðlegt fyrirtæki sem er leiðandi í þjálfun og fræðslu á sviði sjálfbærni, öryggis og umhverfismála. „HSE Consulting hafði um nokkurt skeið leitað að réttum samstarfsaðila til að auka öryggisbrag á íslenskum vinnumarkaði sem uppfylltu kröfur okkar um skilvirkar lausnir enda augljós þörf á markaðnum. Því til viðbótar þyrftu lausnir að vera af hæstu mögulegu gæðum, aðgengilegar á netinu, notendavænar og helst á mörgum tungumálum. SSG uppfyllir allar þessar kröfur og meira til," er haft eftir Eyþóri Sigfússyni, framkvæmdastjóra HSE Consulting, í fréttatilkynningu.