Þýski bankinn HSH Nordbank hefur lokað á lánveitingar til Landic Property. Þetta kemur fram í frétt Berlingske Tidende en eins og greint hefur verið frá er unnið að því að styrkja fjárhagsstöðu félagsins .

Landic Property hefur m.a. fjármagnað sig með því að selja skuldabréf fyrir 470 milljónir danskra króna og á eignir í Svíþjóð fyrir 2,3 milljarða danskra króna, en verð eignanna hefur fallið mikið að undanförnu. HSH Nordbank hefur nú sett fótinn fyrir dyrnar og stöðvað vaxtagreiðslur af skuldabréfum Landic. Bréfin verða kölluð inn í janúar og eignirnar á bakvið þau settar á nauðungarsölu.

Skuldabréfin voru upphaflega gefin út af fasteignafélaginu Keops, en Landic tók það fyrirtæki yfir. Samkvæmt heimildum Berlingske er Landic í viðræðum við HSH um farsæla lausn á málinu, en litlar upplýsingar liggja fyrir um hvernig þeim viðræðum vindur fram. Ekki er langt síðan annar angi Landic, Property Bonds IX, var í sömu sporum og breski bankinn Barclays var þá mótaðili fasteignafélagsins. Þá fólst lausnin í því að fyrrum eigandi Keops, Ole Vagner, tók það eignasafn til sín og lét þau orð fylgja að það félli betur að sínu heildarsafni en þess sem Landic á.