Í kjölfar frækilegs árangurs íslenska landsliðsins í handbolta og einstæðs afreks á Ólympíuleikunum í Peking hefur ríkisstjórnin ákveðið að styrkja Handknattleikssamband Íslands um 50 milljónir króna að því er kemur fram í tilkynningu sem senda var út eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Ljóst er að styrkurinn mun koma fjárhag handknattleikssambandsins á réttann kjöl en talið er að skuldir sambandsins nemi um 40 milljónum króna.

Eins og fram hefur komið býður ríkisstjórnin, Reykjavíkurborg og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands til fagnaðarfundar íslensku þjóðarinnar miðvikudaginn 27. ágúst í tilefni af heimkomu íslenska landsliðsins í handbolta og annarra Ólympíufara frá Peking.

Ákveðin hefur verið ný akstursleið frá Skólavörðuholti en þaðan mun handboltalandsliðið leggja af stað í opnum vagni kl. 18:00 í fylgd lúðrasveitar, fánabera ungs íþróttafólks og lögreglu. Ekið verður niður Skólavörðustíg og Bankastræti að Arnarhóli. Þar verður haldinn fagnaðarfundur Ólympíufaranna og íslensku þjóðarinnar sem í tilkynningu ríkisstjórnarinnar er hvött til að fjölmenna og sýna íþróttafólkinu þakklæti sitt fyrir glæsilega frammistöðu á Ólympíuleikunum í Peking.

Þeir sem ætla að taka þátt í fagnaðinum við Skólavörðustíg og á Arnarhóli eru hvattir til að mæta tímanlega, nota almenningssamgöngur til að komast í miðborgina eða leggja bílum sínum í hæfilegri fjarlægð frá samkomustaðnum til að greiða fyrir umferð segir í tilkynningunni.