Hvergi er hlutfall háskólamenntaðra einstaklinga í Bandaríkjunum jafn mikið og í Washington D.C. og nærliggjandi svæði.

Á vef CNN er því haldið fram að D.C. svæðið sé það gáfastaða í Bandaríkjunum.

Í borginni eru 47,3% þeirra sem eru 25 ára og eldri með BA, MA eða doktorsgráðu. Á sama tíma nær meðaltalið á landsvísu tæplega 25%.

Þessi niðurstaða þarf vart að koma á óvart. Þannig bendir John Schmitt, yfirhagfræðingur Center for Economic and Policy Research í D.C. að borgin sé í raun byggð upp á störfum sem krefjast aukinnar menntunar.  Fyrir utan alla ríkisstarfsmennina, sem vinni að alls kyns stefnumótun, öryggis- og varnarmálum og fleiri atriðum sem snúa að rekstri hins opinbera, starfa margir við ýmis hagsmunasamtök, hugveitur eða aðrar óopinberar stofnanir.

Á eftir Washington D.C. er hæsta hlutfall menntaðra einstaklinga í San Francisco eða 43,5% einstaklinga 25 ára og eldri. Í þriðja sæti er San Jose í Kaliforníu (sem er betur þekkt sem Sílikondalur) með 43,2% hlutfall. Þar á eftir kemur Raleigh í N-Karolínu með 42,2% hlutfall og Boston sem er einnig með 42,2% hlutfall.

Það þarf vart að koma á óvart að algengasta menntun þeirra sem á annað borð eru menntaðir í Sílikondal eru með prófgráðu í tölvu- og tæknifræðum.

Til að telja upp aðrar stærri borgir má nefna að hlutfallið í New York er 35,6%. Þá er hlutfallið 30,2% í Los Angeles og 30,6% í San Diego.

Eins og gefur að skilja eru meðallaun nokkuð hærri í fyrrnefndum borgum en annars staðar í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir ákveðin fátæktarsvæði í Washington er borgin með hæstu meðallaun borga sem hafa yfir 1 milljón íbúa.