Skipti ehf. gerði hæsta tilboðið í Símann og hljóðar það upp á 66,7 milljarða króna. Fulltrúar einkavæðingarnefndar og Morgan Stanley, söluráðgjafa ríkisins, opnuðu tilboðin í viðurvist fjölmiðla í dag.

Skipti-hópurinn samanstendur meðal annars af Exista, Kauþingi banka, Lífeyrissjóði verslunarmanna, Lífeyrissjóði sjómanna, Sameinaða lífeyrissjóðnum, Samvinnulífeyrissjóðnum og MP fjárfestingabanka.

Þrjú bindandi tilboð bárust í Símann. Tilboð Símstöðvarinnar ehf. var næsthæsta tilboðið og hljóðaði upp á 60 milljarða. Tilboð Nýja símafélagsins ehf. hljóðaði upp á rúmlega 54 milljarða.

Aðilar sem mynda Símstöðvar-hópinn eru Burðarás, Kaupfélag Eyfirðinga, Ein stutt, Talsímafélagið og Tryggingamiðstöðin. Atorka, Mósa, Straumborg og F. Bergmann Eignarhaldsfélag standa að Nýja símafélaginu.