Enginn af dómurum Hæstaréttar er með gengisbundin lán. Viðskiptablaðið sendi fyrirspurn til dómara þar sem spurt var hvort dómarar væru með gengisbundin lán eða hefðu tekið þau á einhverjum tímapunkti.

Dómarar sögðust ekki vera með gengisbundin lán og að þeir hefðu aldrei tekið slík lán. Fyrirspurninni var beint til Hæstaréttar í ljósi þess að dómstóllinn hefur mál er tengjast gengisbundnum lánum til umfjöllunar.

Viðskiptablaðið hefur beint sambærilegri fyrirspurn til allra þingmanna. Um 25 þingmenn hafa svarað fyrirspurninni.

Liðlega helmingur þeirra sem svöruðu hafði tekið gengisbundið lán. Þau sem svöruðu voru ýmist búin að greiða lánin upp eða eru enn að greiða af lánunum. Þau voru ýmist tekin til húsnæðis- eða bílakaupa í flestum tilvikum.

Nokkrir þingmenn voru með lán í erlendri mynt, sem ekki teljast vera gengisbundin lán. Fyrirspurninni var beint til þingmanna m.a. á þeim grundvelli að Alþingi hefur málefni er tengjast gengisbundnum lánum til umfjöllunar innan nokkurra nefnda. Þá eru einnig taldar umtalsverðar líkur á því að gripið verði til lagasetningar eftir að Hæstiréttur hefur eytt réttaróvissu um lögmæti lánanna.