Heiða Kristín Helgadóttir, kosningastjóri Besta flokksins og verðandi aðstoðarmaður Jóns Gnarr borgarstjóra segir að upphaflega hafi menn verið með hugmyndir um að fara í samstarf við ákveðin fyrirtæki til að fjármagna kosningabaráttuna þar sem meðvitað væri keyrt yfir markið.

„Það voru hugmyndir á borð við þá að Jón Gnarr myndi mæta í algalla frá 66°Norður í viðtal í Kastsljósi. Það var ákveðinn húmor í því en þegar á hólminn var komið átti það ekki við – þetta breyttist þegar í ljós kom að fólk skildi okkur og studdi. Þá var ekki lengur þörf á því að klína þessu framan í fólk.“

Heiða Kristín segir að Besti flokkkurinn hafi snemma farið í að auglýsa söfnunarreikning og eftir að kannanir höfðu sýnt að flokkurinn væri með sex til sjö menn inni hefði verið keyrt á söfnunina og hún gengið mjög vel. Þannig hafi peningarnir sem Besti flokkurinn hafði úr að spila að langmestu leyti komið í gegnum minni framlög frá einstaklingum. Líklega hafi hæsti einstaki styrkurinn ekki numið meira en 150 þúsund krónum, að öðru leyti hafi þetta verið smáframlög frá fjölda einstaklinga. Þá hafi reynst mjög auðvelt að fá sjálfboðaliða þótt starfið hafi að mestu leyti byggst upp í kringum þann hóp sem skipaði listann.

Margir jákvæðir

„Ég hitti ótrúlega marga sem voru svo innilega jákvæðir gagnvart okkur, fólk sem studdi okkur heils hugar. Það voru til að mynda menn sem unnu við að hreinsa rusl í miðborginni og þeir komu nokkrum sinnum í viku til þess að gefa okkur þúsundkall eða fimmhundruðkall. Þannig gekk þetta mest fyrir sig. Og mér fannst líka merkilegt að ég hitti mjög margt fólk sem ekki hafði kosið áður þótt það væri löngu komið með kosningarétt, það hafði ekki getað tengt sig við neina af stjórnmálaflokkunum og var að kjósa í fyrsta skipti og þá Besta flokkinn.“