„Nei, um slíkt er ekki að ræða," segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Vinstri grænna, innt eftir því hvort flokkurinn hafi fengið viðlíka styrk frá FL Group og fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá í gær að Sjálfstæðisflokkurinn hefði þegið í desember 2006.

„Við höfum lengi haft okkar bókhald opið og er hægt að nálgast þær upplýsingar á vefnum okkar allt frá árinu 2003," segir Drífa. Vinstri græn voru stofnuð árið 1999 og segir Drífa að verið sé að bæta inn á vefinn bókhaldsupplýsingum frá þeim tíma.

Hún segir að hæsti styrkurinn til VG sem hún muni eftir sé styrkur frá Samvinnutryggingum upp á eina milljón króna sem sé frá árinu 2006.

Lög um að stjórnmálaflokkum væri óheimilt að taka við hærri fjárstyrkjum en 300 þúsund krónum á ári frá einstökum lögaðilum tóku gildi 1. janúar 2007.