Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna kröfu Landsbankans um að bú Þráins ehf verði tekið til gjaldþrotaskipta. Fréttastofa Rúv greindi frá í hádegisfréttum í dag en málið er eitt af þremur málum sem tengjast gengistryggðum lánum og Hæstiréttur dæmdi í síðasta miðvikudag.

Þráinn ehf tók fimm gengistryggð lán hjá Landsbanknum á árunum 2006 og 2007 og var heildarupphæð lánanna tæplega 360 milljónir króna.  Fasteignaveð að andvirði um 530 milljónir króna voru til tryggingar. Landsbankinn fór fram á gjaldþrotaskipti í nóvember á síðasta ári og var skuld Þráins ehf þá rúmlega 850 milljónir króna. Þegar Landsbankinn fór fram á gjaldþrotaskiptin áætlaði bankinn að verðmæti veða hefði rýrnað frá því þau voru lögð fram og væru um 474 milljónir.

Niðurstaða Héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, var að óheimilt sé að reikna fjárhæð skuldarinnar með þeirri hækkun sem varð vegna gengisbreytinga og miða ætti við upphaflegan höfuðstól, sem er um 360 milljónir króna. Héraðsdómur taldi að krafa Landsbankans hafi hækkað frá því að lán voru veitt en ekki sé hægt að reikna með viðunandi nákvæmni hver sú upphæð er. Kröfu Landsbankans var því hafnað.