Hæstiréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur að ekki var heimilt að kyrrsetja eignir Skarphéðins Bergs Steinarssonar fyrrverandi stjórnarformanns FL Group að beiðni skattrannsóknarstjórans ríkisins. Fór embætti skattrannsóknarstjóra fram á kyrrsetingu eigna „til tryggingar greiðslu væntanlegrar fésektar vegna rökstudds gruns um að sóknaraðili hefði gerst sekur um refsiverða háttsem".

Í Héraðsdómi fór Skarphéðinn fram á að kyrrsetningin yrði felld úr gildi í kjölfar þess að sýslumaðurinn í Reykjavík féllst á að eignir Skarphéðins, auk eigna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóns Sigurðssonar og Hannesar Smárasonar, yrðu kyrrsettar. Kyrrsetningarbeiðnin var byggð á vísun til þess að Skattrannsóknarstjóri hefði rökstuddan grun um að Skarphéðinn hefði fyrir hönd FL Group/Stoða gerst sekur um brot á lögum um virðisaukaskatt.

Niðurstaða Héraðsdóms var sú að í lögum um tekjuskatt er ekki að finna heimild til kyrrsetningar vegna meintra brota á lögum um virðisaukaskatt. Það var staðfest í Hæstarétti.