Hæstiréttur hefur úrskurðað íslenska ríkinu í vil í máli sem ítalska verktakafyrirtækið Impregilo höfðaði gegn ríkinu vegna endurgreiðslukröfu á sköttum.

Impregilo er þannig dæmt til að greiða ríkinu rúmlega 1,2 milljarð króna auk vaxta en auk þess var Impregilo dæmt til að greiða ríkinu 4 milljónir króna í málskostnað.

Í byrjun árs 2007 krafði Ipregilo íslenska ríkið um endurgreiðslu skatta upp á 1.230 milljónir og er það stærsta endurgreiðslukrafa sem gerð hefur verið á hendur íslenska ríkinu. Impregilo hafði verið gert af skattayfirvöldum að greiða staðgreiðslu af launum portúgalskra starfsmanna sem unnu hér á landi á vegum starfsmannaleiganna Select og NETT.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins nam vaxtakrafa Impregilo um einum milljarði króna og samtals hljóða endurgreiðslukrafa félagsins því upp á rúma 2,2 milljarða króna.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið til að endurgreiða félaginu upphæðina, auk vaxta, í lok árs 2008. Fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar sem nú hefur snúið við dómi héraðsdóms.

Forsaga málsins er sú að við upphaf byggingarframkvæmda við Kárahnjúkastíflu deildu Ríkisskattstjóri og Impregilo um hvort félaginu bæri að greiða staðgreiðslu af launum portúgalskra starfsmanna sem hér störfuðu á vegum starfsmannaleiganna tveggja.

Impregilo taldi að starfsmannaleigurnar ættu sjálfar að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna sinna starfsmanna. Yfirskattanefnd úrskurðaði að Impregilo ætti að greiða staðgreiðsluna og til að fyrirtækið gæti haldið starfsemi sinni hérlendis áfram féllst Impregilo á að greiða staðgreiðsluna líkt og félagið væri launagreiðandinn. Það var þó gert með þeim fyrirvara að Impregilo myndi leita réttar síns fyrir dómstólum og gera kröfu um endurgreiðslu ef úrskurðað yrði fyrirtækinu í hag.

Sjá dóm Hæstaréttar í heild sinni.