Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að bú Stefáns Hilmarssonar, fjármálastjóra 365 fjölmiðlasamsteypunnar og fyrrverandi fjármálastjóra Baugs, verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Dómurinn hefur verið birtur á vef Hæstaréttar en það var Arion banki sem gerði kröfu um að bú Stefáns yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Stefán Hilmar, sem er náinn samstarfsmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, var úrskurðaður gjaldþrota af Héraðsdómi Reykjavíkur þann 9. júlí s.l. en kærði úrskurðinn til Hæstaréttar.

Fyrir tæpum tveimur vikum sagðist Stefán í samtali við Viðskiptablaðið vonast til þess að geta lagt fram gögn sem sýni að hann hafi verið órétti beittur.

„Það var verið að nota peningana mína í að fjárfesta í bréfum í Kaupþingi, Exista og Bakkavör án þess að ég vissi. Þetta tel ég hafa verið lögbrot og vil fá allt upp á borðið. Ekki síst vegna þess að bankinn fer hart fram gegn mér og hefur gert mig gjaldþrota. Ég bind þó vonir við að Hæstiréttur staðfesti ekki gjaldþrotaúrskurð héraðsdóms,“ segir Stefán í samtali við Viðskiptablaðið þann 20. ágúst sl.

Stefán starfar sem fjármálastjóri 365 fjölmiðlasamsteypunnar og heldur jafnframt utan um 3,8% af A-hlutabréfum í félaginu.

Sjá úrskurð Hæstaréttar í heild sinni