Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa Straums-Burðarás um að bú Magnúsar Þorsteinssonar verði teki tekið til gjaldþrotaskipta. Magnús skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2009 þar sem kærður var úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. maí 2009, þar sem bú Magnúsar var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Straums Burðarás.

Í málflutningi kom fram að Magnúsi kveðst hafa veitt BOM fjárfestingum ehf. lán þann 12. október 2005 að fjárhæð 1.063.958.324 krónur, með lánssamningi dagsettum 13. október 2005.  Skyldi lánið bera þriggja mánaða LIBOR/REIBOR vexti að viðbættu 1,7% álagi.  Hafi lánið að viðbættum vöxtum átt að endurgreiðast í einu lagi 10. október 2007.

Magnús fékk handveðrétt í hlutabréfum í Icelandic Group hf. að nafnverði 108.404.569 krónur, samkvæmt handveðsyfirlýsingu, dagsettri 13. október 2005.  Í henni komi fram að komi til þess að markaðsverð bréfa í Icelandic group hf. verði 15% lægra en kaupverð að fjárhæð 1.063.958.324 krónur að viðbættum fjármagns­kostn­aði, sem falli á lánið, skuli BOM fjárfestingar ehf. koma með viðbótartryggingar, sem starfsmenn sóknaraðila meti fullnægjandi, allt þar til tryggingarmörkum verði náð á ný.  Verði BOM fjárfestingar ehf. ekki við kröfu um viðbótartryggingar innan 5 virkra daga sé heimilt að gjaldfella lánssamninginn og ganga að tryggingum í þeirri röð sem sóknaraðili telji besta.

Með bréfi 9. febrúar 2006 hafi Magnús kallað eftir auknum tryggingum þannig að fyrrnefnd skilyrði yrðu uppfyllt.  Með yfirlýsingu BOM fjárfestinga ehf. 16. febrúar 2006 hafi Magnúsi verið sett að handveði reiðufjárinnistæða að fjárhæð 75.000.000 króna.  Með samkomulagi BOM fjárfestinga ehf. og sóknaraðila, dag­settu 10. október 2007, hafi skilmálum lánssamningsins verið breytt í nokkrum atriðum.  Helstu breytingar hafi verið þær að varnaraðili gerðist ábyrgðaraðili og gjalddagi hafi verið færður til 10. október 2008.

Að öðru leyti hafi upphaflegur lánssamningur átt að standa óbreyttur.  Með yfirlýsingu 10. janúar 2008 hafi varnaraðili tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu láns samkvæmt láns­samn­ingnum með áorðnum breytingum.  Í 1. gr. yfirlýsingarinnar hafi ábyrgðarfjárhæð verið takmörkuð við 930.000.000 króna auk 20% ársvaxta frá 10. janúar 2008 til greiðsludags.